Bedlington Terrier

Ræktunarmarkmið

Bedlington terrier er millistór hundategund sem á uppruna sinn að rekja til námubæjarins Bedlington á Englandi. Þar voru þeir notaðir til margs konar meindýraveiða, m.a. rottuveiða, þá aðallega af námumönnum og sígaunum. Til eru skráningar Bedlington terriers allt aftur til ársins 1782. Tegundin er þekkt fyrir sérstakt útlit, en þeir minna einna helst á lamb, vegna ljósa, hrokkna silkimjúka pelsins. Talið er að Bedlington sé náskyldur Dandie Dinmont Terrier, Irish Soft Coated Wheaten Terrier og Whippet, en Bedlington er með sams konar líkamsbyggingu og Whippet, kúpt bak og kröftuga afturfætur sem gerir þeim kleyft að hlaupa á ógnarhraða.

Skapgerð Bedlington terrier er afskaplega þægileg. Þeir eru greindir og það er auðvelt að kenna þeim. Þeir eru fullir sjálfstrausts og hræðast fátt. Það er mikill leikur í þeim og þeir una sér mjög vel með börnum. Þeir verða þó helst að hafa alist upp með börnum. Bedlington er nægjusamur og er þekktur fyrir að líða vel hvar sem hann kemur. Hann verður yfirleitt ekki háður einni manneskju og á það til að sækja sér strokur og kelerí frá bláókunnugu fólki. Þeir eru þekktir fyrir að vera mjög félagslyndir og treysta yfirleitt öllum.

Bedlington er með sterkt veiðieðli og geta verið hættulegir bæði köttum og nagdýrum. Þeir hlaupa hratt svo það er öruggast að halda þeim í taumi sé þeim ekki 100% treystandi til að hlýða stöðvunarskipun. Ef Bedlington á að búa með slíkum dýrum þá verður hann að vera alinn upp með þeim og það er ekki einu sinni öryggi fyrir því að hann geti staðist veiðieðlið. Það er þó einstaklingsbundið

Bedlington er mjög góður með öðrum hundum en komi til uppþota þá er Bedlington mikill terrier og gefur sig ekki svo auðveldlega. Hins vegar er hann mjög seinn til vandræða.

Bedlington er 38 – 44 cm á hæð og 7 – 11 kg. Ekki er mikill munur á hundum og tíkum. Þeir geta verið “bláir, liver eða sand”- litaðir. Allir með eða án “tan” merkinga. Því dekkri því betri – er stundum sagt, en hvolparnir fæðast allir mjög dökkir, nánast svartir og síðan fölnar liturinn nánast í alveg hvítan á öllum litbrigðum. Þeir fara ekki úr hárum. Feldurinn vex stöðugt og það þarf að klippa hann til að halda honum fínum. Sé það ekki gert þæfist feldurinn eins og ull og veldur hundinum miklum óþægindum. Það krefst mikillar nákvæmnisvinnu að klippa þá og yfirleitt þarf að njóta aðstoðar séhæfðs hundasnyrtis. Feldurinn er án undirfelds og þeir framleiða litla sem enga húðfitu, sem veldur því að þeir þola illa að blotna og verða fljótt ískaldir. Hins vegar hafa þeir litla sem enga hundalykt. Það þarf að þjálfa þá hægt og rólega í feldhirðu eins, og alla hárprúða hunda, til að koma í veg fyrir slæma upplifun eftir margra tíma sársaukafulla burstun og klippingu. Best er að byrja smátt og smátt í stuttan tíma og búa þannig til gæðastund milli eiganda og hunds.

Í dag er Bedlington sárasjaldan notaður sem veiðihundur. Hann hefur fengið hlutverk fjölskylduhunds og stendur sig afskaplega vel í því hlutverki. Hann hefur mikið að gefa, hann er mannelskur og sækir mikið í nánd og snertingu, hvort sem er hjá fjölskyldunni eða hjá ókunnugum. Börn elska Bedlington því hann er leikviljugur sé komið fram við hann af vinsemd og virðingu. Hann hentar vel á nútímaheimili því feldurinn vex stöðugt og því fara þeir ekki úr hárum, og ekki er verra að hann hefur takmarkaða hundalykt. Bedlington er nú samt upprunalega veiðihundur og er vaxinn mjög kröftuglega og þarf að fá góða hreyfingu. Allra helst þarf hann að fá að hlaupa laus endrum og sinnum. Þótt hann sé nálægt því að vera hinn fullkomni stórborgarhundur, þá má alls ekki gleyma því að hann verður líka að fá að vera frjáls og njóta sín.