Hundasýning Hundaræktarfélags Íslands helgina 2.- 3. júní verður haldin á Korputorgi, Blikastaðavegi 2-8, 112 Reykjavík. Nýja sýningasvæðið er allt opið, sölu- og kynningabásar eru inni á sjálfu sýningasvæðinu ásamt sýnendum og áhorfendum. Áhorfendum er leyfilegt að koma með sína eigin stóla og sitja við sýningahringi. Gestum gefst kostur á að kynnast hundum og ræða við hundeigendur og sýnendur auk þess sem á staðnum er fjöldinn allur af sölu- og kynningabásum þar sem ýmis tilboð verða í gangi.
Alls verða sýndir 689 hreinræktaðir hundar af 75 hundategundum og hefjast dómar kl. 9:00 árdegis báða daga og standa fram eftir degi.
Fimm dómarar frá fjórum löndum; Bretlandi, Belgíu, Danmörku og Írlandi dæma í fimm sýningarhringjum samtímis.
Megintilgangur hundasýninga er að meta hundana út frá ræktunarmarkmiði hvers kyns og leiðbeina ræktendum þannig í starfi sínu.
Öflugt barna- og unglingastarf er starfrækt innan félagsins og að þessu sinni taka 27 ungmenni þátt í keppni ungra sýnenda, laugardaginn 2. júní kl.13:00.
Úrslit á báða daga hefjast um kl. 14:00 og þá kemur í ljós hvaða hundar bera af að mati dómara.